Kirkjubrauð Önnu

17. janúar 2010

Þessa uppskrift fékk ég hjá Önnu kirkjuverði og varð að bjóða ykkur hana líka.  Dásamlegt brauð, frekar blautt og þétt, en dásamlega bragðgott og mettandi.  Svo ekki sé minnst á hollustuna. 

5 dl spelt
1 dl sólblómafræ, sesamfræ eða kókosmjöl
3 tsk vínsteinslyftiduft
1/2 - 1 tsk sjávarsalt
1 1/2 - 2 dl ab-mjólk eða sojamjólk
1 1/2 - 2 dl sjóðandi heitt vatn

1.  Blandið þurrefnum saman í skál.
2.  Hellið vökvanum út í og blandið varlega saman.
3.  Á þessu stigi er hægt að setja ýmislegt fleira saman við brauðdegið, t.d. sólþurkaða tómata, ólífur, gulrætur, hvítlauk eða kryddjurtir. 
4.  Setjið degið í smurt brauðform og bakið í 25-30 mín við 200 °C hita.

Með þessa brauðuppskrift er um að gera að leika sér svolítið, gera tilraunir og skoða hvað ykkur finnst best.  Sjálfri finnst mér brauðið best með sólblómafræjunum.  Nýbakað, er brauðið algert lostæti. 

Gangi ykkur vel!